*

föstudagur, 3. apríl 2020
Innlent 12. febrúar 2020 17:17

Smárabíó stækkar og meiri afþreying

Hagnaður fyrir matsbreytingu nam 6,7 milljörðum og hækkaði um 25%. Hluthafar fá 1,5 milljarða vegna afkomu ársins.

Júlíus Þór Halldórsson
Helgi S. Gunnarsson er forstjóri Regins.
Haraldur Guðjónsson

Til stendur að stækka Smárabíó, fjölga valkostum í afþreyingu og veitingum og byggja upp bílageymslu norðan við Smáralind. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Regins fyrir síðasta ár.

Rekstrartekjur fasteignafélagsins námu tæpum 10 milljörðum króna í fyrra og jukust um tæpan fimmtung milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 6,7 milljörðum og hækkaði um tæpan fjórðung. Endanlegur hagnaður ársins nam 4,5 milljörðum og jókst um 39%. Arðsemi eiginfjár var 10%.

Hrein fjármagnsgjöld námu 5,2 milljörðum króna og jukust um fimmtung milli ára þrátt fyrir vaxtalækkanir síðasta árs, og aðeins tæpa 10% aukningu heildarskulda. Að sögn Jóhanns Sigurjónssonar fjármálastjóra félagsins er skýringin sú að á árinu hafi verið tekin framkvæmdalán sem beri hærri vexti en önnur fjármögnun félagsins, en til standi að endurfjármagna lánin við fyrsta tækifæri með skuldabréfaútgáfu.

Heildareignir um síðastliðin áramót námu 145 milljörðum og hækkuðu um tæp 9% á síðasta ári, og eigið fé nam 46 milljörðum og jókst um 10%. Eiginfjárhlutfall nam 32% og jókst lítillega.

Veltufjármunir drógust nokkuð saman milli ára og skammtímaskuldir jukust þónokkuð, svo veltufjárhlutfall fór úr 0,96 í 0,68.

Greidd laun námu 676 milljónum og jukust um 23% milli ára, og ársverk voru 54 og fjölgaði um 11, eða rúm 25%. Meðallaun námu því rúmri milljón á mánuði og lækkuðu lítillega milli ára.

Stjórn félagsins leggur til arðgreiðslu upp á 535 milljónir króna, til viðbótar við endurkaup upp á 967 milljónir, samanlagt 1,5 milljarður í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins sem kveður á um að þriðjungi hagnaðar næstliðins rekstrarárs sé ráðstafað til hluthafa.