Smyril Line Ísland hagnaðist um um 878 milljónir króna í fyrra sem er næstum helmingi meiri hagnaður en árið á undan þegar fé­lagið hagnaðist um 455 milljónir.

Sam­kvæmt rekstrar­reikningi námu tekjur flutninga­fyrir­tækisins 13,7 milljörðum króna á árinu sem er hækkun úr 11,5 milljörðum árið áður. Rekstrar­hagnaður jókst tölu­vert milli ára og fór úr 456 milljónum í næstum 1,2 milljarða.

Eignir fé­lagsins í árs­lok voru um 2 milljarðar króna og skuldir um 406 milljónir. Eigið fé var 1,6 milljarðar og eigin­fjár­hlut­fall 80%.

„Um­svif Smyril Line Ís­land ehf. héldu á­fram að aukast á árinu með auknum flutningnum, en fé­lagið hélt á­fram að auka markaðs­hlut­deild sína og um­fang í rekstri. Þrátt fyrir miklar hækkanir á rekstrar­kostnaði leigu­skipa á árinu hefur fé­lagið sýnt góðan árangur hvað varðar kostnaðar­hag­fræði líkt og af­koman ber með sér,“ segir í árs­upp­gjöri.

Auka starfsemina í Þorlákshöfn

Fé­lagið gerir ráð fyrir að starf­semin á árinu 2024 verði með sam­bæri­legum hætti og í fyrra en á­ætlað er að fé­lagið muni auka starf­semina í Þor­láks­höfn með því að hefja byggingu nýrrar vöru- og þjónustu­byggingar.

Fær­eyska fé­lagið p/f Smyril Line á 100% eignar­hlut í fé­laginu en stjórn leggur til að greiddur verði út arður að upp­hæð 430 milljónir króna í ár.