Brottvikning bankastjóra Seðlabanka Íslands heyrir undir ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt þeim lögum er ekki hægt að víkja bankastjóra úr starfi nema að uppfylltum ákveðnum og mjög ströngum skilyrðum.

Bankastjórar Seðlabankans heyra ótvírætt undir þessi lög samkvæmt lista fjármálaráðherra sem birtur var 20. janúar sl.

Þetta þýðir með öðrum orðum að það gæti verið snúið að víkja Seðlabankastjórum úr starfi.

Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands frá árinu 2001, sem Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra flutti og mælti fyrir á Alþingi, skipar forsætisráðherra formann bankastjórnar Seðlabankans og aðra bankastjóra til sjö ára í senn.

Í athugasemdum frumvarpsins er sérstaklega tekið fram að ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi um brottvikningu bankastjóra. Samkvæmt þeim lögum þarf embættismaður að hafa brotið alvarlega af sér í starfi til að hægt sé að víkja honum.

Þá er þar tilgreint að hægt sé að veita embættismanni lausn um stundarsakir vegna til dæmis óstundvísi eða vanrækslu en áður þarf að áminna hann og veita honum tækifæri til að bæta ráð sitt.

Nánar í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.