Greining Arion banka spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,1% í mánuðinum. Gangi spáin eftir mun verðbólga fara úr 4,2% í desember í 3,8%.

Í Markaðspunktum greiningardeildarinnar segir að útsöluáhrifin komi jafnan sterkt fram í mánuðinum. Á móti vegi almennar gjaldskrárhækkanir. Á hinn bóginn féll hið opinbera frá hærri álögum á bensín, olíu, bjór, léttvíni, bifreiðagjöldum og útvarpsgjaldi í fjárlögum sem samþykkt voru á Alþingi í desember. Bent er á að undanfarin ár hafi skattahækkanir litað verulega verðbólgutölurnar við upphaf ársins. Þær geri það ekki í eins miklum mæli að þessu sinni. Eins er ekki búist við því að framlenging kjarasamninga hafi áhrif á verðbólguþróun. Niðurstaðan sem náð var í gær dregur hins vegar úr óvissunni, að mati deildarinnar.

Greiningardeild spáir því jafnframt að enn muni draga úr verðbólgu á næstu mánuðum og verði hún komin niður í ríflega 3% í apríl.