IFS Greining og Greining Íslandsbanka spá 0,2% hækkun vísitölu neysluverðs í júlí. Miðað við þá hækkun lækkar 12 mánaða verðbólga úr 12,2% í júní í 11,4% í júlí. (Skv. Greiningu Íslandsbanka er að vísu talað um 11,3%, en mismunurinn stafar væntalega af námundun aukastafa.)

Greining Íslandsbanka segir að verðbólga hafi ekki verið lægri frá því í mars 2008. Júlí sé útsölumánuður og útsölur vegi 0,4% til lækkunar nú. IFS Greining telur lækkunaráhrif vegna útsölu verða meiri, eða 0,6%. Báðir greinendur telja húsnæðisliðinn muni vega 0,1% til lækkunar.

Til hækkunar er gengissig krónunnar og hækkun á bensíni vegna nýlegrar skattahækkunar.

Greining Íslandsbanka og IFS Greining eru sammála um að verðbólgumarkmið upp á 2,5% náist ekki á þessu ári. Hinir fyrrnefndu spá 5,5% verðbólgu í byrjun næsta árs en hinir síðarnefndu eru heldur bjartsýnni og spá 4,5% verðbólgu yfir þetta ár.