Aukin samkeppni á íbúðalánamarkaði hefur hleypt nýju lífi í skuldabréfamarkaðinn. Nú þegar bankarnir bjóða upp á lægri vexti en Íbúðalánsjóður á verðtryggðum íbúðalánum má ætla að eftirspurn eftir lánum Íbúðalánasjóðs minnki og að framboð á ríkistryggðum skuldabréfum dragist saman. Í ljósi þessa hefur greiningardeild Íslandsbanka endurskoðað spá sínar um ávöxtunarkröfu markflokka skuldabréfa til ársloka. Spáin gerir ráð fyrir að ávöxtunarkrafa verðtryggðu flokkanna haldi áfram að lækka og fari undir 3,5% á lengstu bréfunum fyrir árslok.

Í spá Íslandsbanka er gert ráð fyrir að Seðlabankinn hækki stýrivexti sína um 25-50 punkta núna í september og að stýrivextir bankans verði komnir í 8,0% fyrir mitt næsta ár. "Við gerum ráð fyrir að væntar hækkanir stýrivaxta Seðlabanka þrýsti ávöxtunarkröfu styttri ríkisbréfanna upp á við til ársloka en að ávöxtunarkrafa lengsta flokksins RIKB 13 verði lítið breytt," segir í Morgunkorninu.