Alþjóðabankinn hefur lækkað hagspá sína fyrir heimshagkerfið. Spáir bankinn þannig 3% hagvexti á þessu ári og 3,3% vexti á því næsta. BBC News greinir frá þessu.

Bankinn hafði gefið út spá í sumar sem gerði ráð fyrir 3,4% hagvexti á þessu ári og 3,5% á því næsta. Kaushik Basu, aðalhagfræðingur bankans, segir hins vegar núna að hagkerfi heimsins gangi aðeins fyrir einni vél; bandaríska hagkerfinu. Það geri það að verkum að horfurnar séu verri en áður hafði verið búist við.

Alþjóðabankinn varar við því að lækkandi olíuverð muni hafa slæm áhrif á efnahag þeirra landa sem reiða sig að miklu leyti á útflutning olíu. Þannig spáir bankinn því að samdráttur verði í hagvexti Rússlands um 2,9% á þessu ári, og hagvöxtur muni aðeins nema 0,1% þar í landi á næsta ári.

Hann sagði hins vegar að lækkandi olíuverð yrði til hagsbóta fyrir mörg ríki. „Lægra olíuverð, sem búist er við að haldist út árið 2015, þýðir minni verðbólga á heimsvísu sem leiðir að líkindum til minni hækkana stýrivaxta í ríkum löndum. Þetta felur í sér ákveðin tækifæri fyrir þau lönd sem flytja inn olíu,“ segir Basu. Þannig spáir bankinn því til dæmis að hagvöxtur í Indlandi aukist um 7% fyrir árið 2016.