Forsvarsmenn íslenska fyrirtækisins NeckCare Holding ehf., sem selur veflægar greiningar og endurhæfingarlausnir á hreyfiskaða á alþjóðlegum mörkuðum, telja að lausn fyrirtækisins geti sparað heilbrigðiskerfum og tryggingafélögum umtalsverðar fjárhæðir.

„Búnaðurinn frá NeckCare er sá eini sinnar tegundar í heiminum og getur hann mælt með mikilli nákvæmni hreyfingu á hálsi og baki. Um 360 milljarða dollara kostnaður fellur til árlega í Bandaríkjunum vegna stoðkerfisvanda og þar af er um 130 milljörðum eytt í meðferðir á bak- og hálsskaða," segir Kim De Roy, einn af eigendum NeckCare Holding. Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum kom Kim nýlega inn í eigendahóp fyrirtækisins, en áður starfaði hann sem forstöðumaður rannsóknar og þróunar hjá Össuri.

„Við störf mín á alþjóðlega heilbrigðismarkaðnum hef ég kynnst því að það er lögð mikil áhersla á að lágmarka kostnað. Það gerir það að verkum að sífellt mikilvægara er að geta sýnt fram á virkni tiltekinnar lausnar eða meðferðar með hlutlægum (tölulegum) gögnum. Á síðastliðnum áratug hafa þeir sem standa straum af stærstum hluta kostnaðar í heilbrigðisgeiranum, s.s. tryggingafélög og heilbrigðiskerfi, viljað sjá staðfestingu fyrir því að sú meðferð sem þau eru að greiða fyrir verði sjúklingnum að gagni.

Með lausnum frá NeckCare er hægt að staðfesta með sannarlegum hætti fyrir þeim sem greiða fyrir meðferðina að sjúklingurinn sé á réttri leið. Um leið er tryggt að hver einstaklingur fái meðferð sem sérsniðin er að hans þörfum. Á þennan hátt vinna allir; læknarnir, sá sem greiðir fyrir meðferðina, sjúkraþjálfarinn og sjúklingurinn sjálfur," segir hann.

Styrkur frá bandaríska flughernum

Lausn NeckCare er að sögn Kim og Þorsteins Geirssonar framkvæmdastjóra þegar farin að vekja talsverða athygli erlendis.

„Við höfum þegar fengið styrk frá bandaríska flughernum, en þetta tengist ríkisbatteríi sem heitir Veterans Affairs (VA). VA tekur við öllum þeim sem hafa lokið herþjónustu og er í raun ákveðið tryggingakerfi sem tryggir þeim aðilum þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda við starfslok. Um 80% af þeim flugmönnum sem hafa lokið störfum hjá bandaríska flughernum hafa hlotið krónískan hálsskaða sökum starfa sinna fyrir flugherinn," segir Þorsteinn.

„Stærsti einstaki kostnaðarliður hjá VA eru verkjalyf. Það er góður möguleiki á að lækka þann kostnað verulega með því að ná auknum árangri í meðferð við bak- og hálsvandamálum," segir Kim.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .