Fjármálaeftirlitið hóf athugun á aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í október á síðasta ári. Athugunin beindist að öllum starfandi sparisjóðum. Það er að segja Sparisjóði Austurlands, Sparisjóði Höfðhverfinga, Sparisjóði Strandamanna og Sparisjóði Suður-Þingeyinga.

Markmið athugunarinnar var að kanna framfylgni við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hvernig staðið væri að framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.  Þeir þættir sem skoðaðir voru í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka voru meðal annars verklag innra eftirlits og við könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.

Einnig var skoðað hvernig sparisjóðirnir stóðu að reglubundnu eftirliti með samningssambandinu, auk þess sem Fjármálaeftirlitið aflaði upplýsinga um fjölda tilkynninga um grun um peningaþætti og fjármögnun hryðjuverka. Að teknu tilliti til þeirra gagna og upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið aflaði við athugun þessa taldi Fjármálaeftirlitið tilefni til að gera athugasemd við að reglubundið eftirlit með samningssambandi við viðskiptamenn, hjá öllum sparisjóðunum, væri ekki í fullu samræmi við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Fjárhæðarmörk viðskipta sem tölvukerfi sparisjóðanna flaggaði voru að mati Fjármálaeftirlitsins of há og stillingarmöguleikar kerfisins ekki nýttir til fulls. Til þess að koma auga á viðskipti sem grunur leikur á að megi rekja til peningaþvættis eða fjármögnun hryðjuverka þarf að stilla virkni tölvukerfa á þann hátt að mörgum minni færslum hjá sama viðskiptamanni sé flaggað þegar ákveðnum fjárhæðarmörkum er náð og varpað sé ljósi á óeðlilegt viðskiptamynstur miðað við uppgefnar upplýsingar um tilgang og eðli viðskipta. Þar fyrir utan var það mat Fjármálaeftirlitsins að sparisjóðirnir stæðu ekki nægilega vel að því að uppfæra með reglulegum hætti upplýsingar um viðskiptamenn sína.

Fjármálaeftirlitið fór fram á að viðeigandi úrbætur yrðu gerðar.