Fjölskylda Hlöðvers Sigurðssonar – stofnanda Hlöllabáta – hefur tekið við rekstri Litlu kaffistofunnar við Suðurlandsveg, og verður staðurinn opnaður að nýju nú í ágúst. Hann verður með svipuðu sniði og áður hefur þekkst, en fjölskyldan hyggst þó fríska aðeins upp á hann. Elín Guðný Hlöðversdóttir, dóttir Hlöðvers, segir lykilinn að velgengni í veitingarekstri felast í að taka virkan þátt í rekstrinum sjálfur.

Fjölskyldan seldi Hlöllabáta árið 2012 og hefur ekki verið í veitingarekstri síðan Juniorinn í Kópavogi lokaði 2017. Þau hafa hins vegar öll sem eitt mikinn áhuga á og ástríðu fyrir bransanum. Því stukku þau á tækifærið þegar þau heyrðu af lokun Kaffistofunnar og höfðu samband við Olís, sem á og leigir húsnæðið.

„Þegar við sáum að Kaffistofan væri að loka hugsuðum við með okkur að þarna væri komið tækifæri til að komast aftur í veitingabransann. Þetta gerðist mjög hratt. Við höfðum samband og vorum komin á fund hjá þeim daginn eftir. Nokkrum dögum seinna voru Svanur og Katrín búin að loka, og viku seinna tókum við við lyklunum.“

Skipta út innréttingum og bæta við matseðilinn

Þau hófust þegar handa við að undirbúa staðinn, sem til stendur að verði opnaður í fyrri hluta ágúst. „Það var kominn tími á smá endurbætur innanhúss, og við vildum líka gera staðinn svolítið að okkar. Við skiptum út stólum og borðum og erum aðeins að breyta til í eldhúsinu, auk þess að koma fyrir nokkrum hlutum sem hafa fylgt okkur í gegnum árin. Þetta eru engar svakalegar breytingar.“

Lagt verður upp með að halda í andrúmsloft og upplifun staðarins – sem var fyrst opnaður árið 1960 og er flestum landsmönnum kunnugur – en fjölskyldan mun þó setja mark sitt á staðinn á fleiri sviðum en innréttingum.

„Það er frábær saga á bak við Kaffistofuna, sem er rótgróin í íslenskri matarmenningu og margir eiga sérstaka tengingu við hana. Við munum bjóða upp á allt það helsta sem verið hefur í öll þessi ár, þetta gamla góða, en við ætlum einnig að bæta því við sem við kunnum best,“ segir Elín.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað um dómsmál sem sprottið hafa upp vegna deilna í eigendahópi Deloitte.
  • Ráðherrar eru til viðtals um stöðuna í baráttunni við farsóttina.
  • Ítarleg greining á rekstri bankanna.
  • Fjallað um samruna Baader og Skagans 3X.
  • Sterkur kjúklingur að bandarískum sið er einkennismerki nýs veitingastaðar sem ber nafnið Stél.
  • Fjallað um kostnað í tengslum við eitt umfangsmesta og þekktasta sakamál Íslandssögunnar.
  • Að reka hljómsveit er ekkert öðruvísi en að stýra fyrirtæki segir forstjóri Play en hann og Aðalbjörn Tryggvason, oft kenndur við Sólstafi, gefa bráðum út plötu í sameiningu.
  • Hrafnarnir eru á sínum stað og Ríkisútvarpið er Tý ofarlega í huga.