Hætt er við því, að mati greiningardeildar Arion banka, að Seðlabankinn sé nú að endurtaka sömu mistök og áttu sér stað síðasta sumar, þegar krónunni var leyft að styrkjast mikið og hratt til þess eins að veikjast svo aftur þegar haustaði með tilheyrandi hröðun í verðbólgu. Kemur þetta fram í Markaðspunktum greiningadeildarinnar.

„Erfitt er að finna rök sem styðja þá ákvörðun að aðhafast ekkert og leyfa krónunni að styrkjast enn frekar. Í inngangi Seðlabankastjóra að síðasta Fjármálastöðugleikariti bankans kom t.a.m. fram að miðað við óbreytt gengi myndi fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki nægja til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána. Með inngripum á kauphlið væri hægt að draga úr styrkingunni, slá þannig á vöxt í innflutningi og auka afgang af utanríkisviðskiptum, samhliða því að safna gjaldeyri. Allt bendir því til þess að fyrr en síðar muni Seðlabankinn tilkynna um regluleg gjaldeyriskaup á nýjan leik eða sambærileg inngrip til að styrkja óskuldsettan gjaldeyrisforða bankans,“ segir í Markaðspunktunum.

Tíðinda að vænta í vikunni?

Þar kemur einnig fram að sveiflur á gengi krónunnar hafi ekki verið meiri í þrjú ár og er í því sambandi vísað í inngangsorð seðlabankastjóra á fundi efnahags- og viðskiptanefndar 25. febrúar síðastliðinn. Þar sagði hann: „„Það er mat peningastefnunefndar að inngrip af þessu tagi séu réttlætanleg til að draga úr tímabundnum sveiflum í gengi krónunnar sem ekki er heppilegt að bregðast við með vaxtatækinu . […] Þar sem þessar aðstæður eru að hluta til tímabundnar og vænta má meira gjaldeyrisinnstreymis með vorinu getur tímabundin gjaldeyrissala af hálfu Seðlabankans komið í veg fyrir of mikla veikingu krónunnar og stemmt stigu við sjálfuppfylltum væntingum markaðsaðila.” (Feitletrun greiningardeildarinnar.)

Svo segir að ef gjaldeyrisinngripin voru réttlætanleg til að jafna sveiflur krónunnar á fyrstu mánuðum ársins þá sé óskiljanlegt hvers vegna ekki hafi verið gripið til inngripa á kauphliðinni nú.

„Á kynningarfundi Seðlabankans um nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika í lok apríl fékk Seðlabankastjóri spurningu sem sneri að því hvort styrking krónunnar samræmdist markmiðum um jafnvægi á greiðsluflæði, og hvort vannýtt svigrúm til inngripa væri til staðar. Í svari sínu ýjaði bankastjóri að því að frekari fregna eða útskýringa á aðgerðum bankans á millibankamarkaði væri að vænta, án þess að segja nákvæmlega hvað í þeim gæti falist.

Við teljum því hugsanlegt að til einhverra tíðinda dragi við næstu vaxtaákvörðun bankans þann 15. maí næstkomandi, og minnum á að þegar bankinn hóf regluleg kaup sín á gjaldeyrismarkaði 31. ágúst 2010 var tilkynnt um þau samhliða stýrivaxtaákvörðun þann 18. sama mánaðar,“ segir að lokum í Markaðspunktunum.