*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Staðreyndavogin 17. október 2016 11:11

Staðreyndavogin: Eignaskattar

Þvert á fullyrðingu Oddnýjar Harðardóttur leggja fæst OECD-ríki auðlegðarskatta á þegna sína.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sprengisandur, Bylgjan.  9.október 2016:

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar:

„Síðan viljum við skoða stóreignaskatt og hann er nú reyndar settur á nú um stundir í næstum því öllum þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við.[…] Þá erum við að tala um allar eignir, en viljum horfa framhjá heimili fólks“.

Þó óljóst sé nákvæmlega hvaða ríki það eru sem Oddný vill bera okkur saman við þá eru stóreignaskattar, eða svokallaðir auðlegðarskattar, sjaldgæfir í öðrum ríkjum. Líkt og á Íslandi er algengt að sveitarfélög leggi á fasteignaskatta en lítið fer fyrir svokölluðum auðlegarskatti, eða skatti á hreinar eignir (net wealth tax).

Algengt er að bera Ísland saman við önnur ríki OECD en af 35 aðildarríkjum stofunarinnar stunda einungis 5 slíka skattheimtu nú á árinu 2016. Af Norðurlöndunum er það einungis Noregur sem leggur á slíka skatta. OECD-ríkin sem leggja á auðlegðarskatta eru Frakkland, Ítalía, Noregur, Spánn og Sviss. Önnur OECD-ríki leggja ekki slíka skatta á þegna sína. Er hér miðað við upplýsingar úr Alþjóðlegum skattagrunni Deloitte, úttekt á skattkerfum ríkja árið 2016.

Það er því ekki rétt hjá Oddnýju að slík skattheimta sé til staðar „í næstum öllum þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við“. Miðað við það hversu óalgeng slík skattheimta er virðist Oddný ennfremur hafa færst fjær kollegum sínum í nágrannaríkjunum frá þeim tíma þegar hún var fjármálaráðherra og sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ákveðin vandamál fylgdu auðlegðarskattinum. Þá bætti hún við: „Hann [auðlegðarskatturinn] er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“

Fram að Alþingiskosningum þann 29. október næstkomandi mun Viðskiptablaðið vega og meta ummæli sem frambjóðendur flokkanna láta falla á opinberum vettvangi. Ummælin verða sannreynd og niðurstaðan birt. Þessi liður mun birtast á vefsíðu Viðskiptablaðsins og bera yfirskriftina Staðreyndavogin.

Fleiri greinar úr Staðreyndavoginni: