Ford Motor Company mun í fyrsta skipti í áratugi byggja nýja bílaverksmiðju í Bandaríkjunum. Verksmiðjan verður í Tennessee og í henni á að framleiða rafknúna pallbíla af Ford F -gerð.

Að auki hefur Ford tilkynnt um byggingu þriggja rafhlöðuverksmiðja í Bandaríkjunum í samvinnu við suðurkóreska rafhlöðuframleiðandann SK Innovation . Tvær verksmiðjanna verða í Kentucky en sú þriðja í Tennessee , líkt og bílaverksmiðjan sjálf.

Áætlaður kostnaður Ford við byggingu verksmiðjanna er 7 milljarðar dollara, sem er stærsta fjárfesting fyrirtækisins í verksmiðjum í 118 ára sögu þess. Þessu til viðbótar leggur SK Innovation til 4,4 milljarða dollara. Í heildina er þetta því fjárfesting upp á 11,4 milljarða dollara eða tæplega 1.500 milljarða króna.

Reiknað er með að verksmiðjurnar verði teknar í notkun árið 2025. Munu rafhlöðuverksmiðjurnar framleiða milljón rafhlöður fyrir rafmagnsbíla á ári. Áætlað að þetta skapi 11 þúsund ný störf í Tennessee og Kentucky .