Nova hefur birt lista yfir 20 stærstu hluthafa sína eftir hlutafjárútboð félagsins sem lauk þann 10. júní síðastliðinn. Ljóst er að stærsti hluthafinn Nova Acquisition Holding, sem er í eigu bandaríska fjárfestingasjóðsins Pt. Capital, seldi um 39,5% hlut í Nova fyrir um 7,7 milljarða króna, og fer nú með 11,1% hlut í fjarskiptafélaginu.

Fimm lífeyrissjóðir koma nýir inn á hluthafalistann. Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og Lífsverk keyptu sitthvorn 2,3% hlut að markaðsvirði 400 milljónir króna. Stapi fer með 2,0% hlut, Almenni með 1,8% og Festa með 1,4%.

Sjá einnig: Nova fallið um tíund í fyrstu viðskiptum

Almennu útboði Nova fyrir skráningu félagsins lauk á föstudaginn 10. júní síðastliðinn. Tvöföld eftirspurn var í útboðinu miðað við grunnstærð þess en ákveðið var að stækka útboðið um 20% í þágu áskriftarbókar A, fyrir tilboð undir 20 milljónum króna. Seldur var 44,5% hlutur í Nova fyrir 8,7 milljarða króna.

Fyrr í ár keyptu nýir hluthafar 36% hlut í Nova fyrir um 7 milljarða króna, þar af var um helmingur í formi nýs hlutafjár. Sjóðir í stýringu Stefnis, Íslandssjóða og Landsbréfa voru stærstir í þeirri fjárfestingarlotu.