Nýir hluthafar í fjarskiptafyrirtækinu Nova greiddu um sjö milljarða króna fyrir 36% hlut í Nova samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Tilkynnt var um söluna á hlutnum í síðustu viku og greint frá því að salan væri liður í undirbúningi fyrir skráningu félagsins á aðalmarkað kauphallarinnar sem til stendur að ljúka á fyrri hluta þessa árs.

Meðal nýrra hluthafa eru sjóðir í stýringu Stefnis, Íslandssjóða og Landsbréf. Auk þess tók hópur einkafjárfesta þátt í sölunni, en endanlegur hluthafalisti hefur enn ekki verið gefinn út. Um helmingur af kaupunum var nýttur til kaupa hluti af núverandi hluthöfum en afgangurinn var í formi nýs hlutafjár.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var seldur stærri hlutur en upphaflega stóð til vegna mikils áhuga á fjárfestingu í félaginu. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi við söluna og hefur umsjón með skráningunni á markað.

Nokkrar breytingar hafa verið á hluthafahópi Nova undanfarin ár. Bandaríski framtakssjóðurinn Pt Capital eignaðist helmingshlut í félaginu árið 2017 og keypti síðan eftirstandandi helmingshlut Novator í ágúst á síðasta ári, og eignaðist þar með nærri allt hlutafé félagsins. Novator hafði fram að því verið aðaleigandi félagsins frá stofnun þess árið 2006.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .