Gengi hlutabréfa í fjarskiptafyrirtækinu Nova, sem tekin voru til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar nú í morgun, stendur nú í 4,6 krónum á hlut og hefur lækkað um 9% frá útboðsgenginu 5,11 í fyrstu viðskiptum dagsins, sem óhætt er að segja að hafi verið lífleg. Velta með bréfin nemur þegar þetta er skrifað tæpum 350 milljónum króna í sléttum 50 viðskiptum.

Tvö einstök viðskipti stóðu þó undir ríflega þremur fjórðu hlutum veltunnar: sala upp á 153 milljónir á útboðsgenginu 5,11 á slaginu hálf 10 við opnun markaða, og 112 milljóna sala 5 mínútum síðar á genginu 4,98.

Félagið seldi 45% útgefins hlutafjár í frumútboði í aðdraganda skráningarinnar sem haldið var frá 3. til 10. júní síðastliðnum fyrir alls 8,7 milljarða króna. Áskriftir bárust fyrir um 12 milljarða sem var þreföld eftirspurn í tilboðsbók A en aðeins rúmlega einföld í bók B.

Sjá einnig: Stækka útboð Nova um 20%

Félagið hafði einnig gefið út nýtt hlutafé og selt til fagfjárfesta í apríl á þessu ári í aðdraganda útboðsins fyrir alls um 7 milljarða.