Enn er verið að yfirheyra starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra vegna gruns um samráð fyrirtækjanna samkvæmt tíufréttum Rúv í kvöld. Alls hafi sautján starfsmenn verið yfirheyrðir í dag.

Grunur leikur á að brotin hafi átt sér stað frá síðastliðnu hausti samkvæmt fréttum Rúv. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu í dag kom fram að til rannsóknar væru ætluð brot á banni samkeppnislaga við samráði keppinauta um m.a. verð, gerð tilboða og skiptingu markaða. Þá var búið að handtaka fimmtán einstaklinga og færa í yfirheyrslu.

„Rannsókn efnahagsbrotadeildar beinist að ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna og grundvallast á kæru Samkeppniseftirlitsins, en þau brot sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru stofnunarinnar. Samhliða rannsókn lögreglu á ætluðum brotum starfsmanna fyrirtækjanna hefur Samkeppniseftirlitið til rannsóknar hugsanleg brot hlutaðeigandi fyrirtækja á banni við ólögmætu samráði, en slík brot varða fyrirtæki m.a. stjórnvaldssektum. Aðgerðirnar eru framkvæmdar í samvinnu við Samkeppniseftirlitið," sagði jafnframt í tilkynningunni.

Uppfært kl. 22.37

Borist hefur fréttatilkynning frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra þar sem fram kemur að allir sem voru yfirheyrðir í dag eru frjálsir ferða sinna. Fréttatilkynningin birtist hér í heild:

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur í dag, yfirheyrt alls sautján manns sem allir eru stjórnendur eða starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar hf. Yfirheyrslum er nú lokið og eru allir frjálsir ferða sinna. Unnið er að rannsókn málsins í samvinnu við Samkeppniseftirlitið.