Viðskiptahraðallinn Startup Reykjavík hlaut í gær viðurkenningu Nordic Startup Awards sem besti viðskiptahraðall Norðurlanda. Í dómnefnd voru um tuttugu einstaklingar hvaðan af úr heiminum úr röðum virtra frumkvöðla, fjárfesta, stjórnenda og annarra sérfræðinga. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á sæti í dómnefnd fyrir hönd Íslands.

“Við erum gríðarlega stolt af því að hljóta viðurkenningu Nordic Startup Awards úr hópi öflugra viðskiptahraðla í nágrannalöndum okkar. Ég er sannfærð um að stöðugar umbætur í framkvæmd, aðkoma lykilaðila innan sprotasamfélagsins og sterk tengsl við erlendar fyrirmyndir hafi skilað okkur þessum árangri,” segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak Innovit.

Startup Reykjavik fór fyrst fram árið 2012 og mun fara fram í fjórða sinn nú í sumar. Meðal verkefna sem hafa tekið þátt í Startup Reykjavík eru Zalibuna, Activity Stream, Herberia, Mure VR, CrowbarProtein, SuitMe og Þoran Distillery.

Það eru Arion banki og Klak Innovit sem standa að Startup Reykjavík, en Arion banki hefur fjárfest í þrjátíu sprotafyrirtækjum í gegnum Startup Reykjavík á síðustu þremur árum og leggur viðskiptahraðlinum jafnframt til fjármagn og aðstöðu. Klak Innovit sér um framkvæmd verkefnisins.