Kjarasamningar meginþorra opinberra starfsmanna losna á föstudaginn. Viðræður hjá BSRB, BHM og Kennarasambandi Íslands standa enn yfir og horft er til þess að ná samkomulagi fyrir lok vikunnar.

„Samningurinn rennur út á föstudaginn og við horfum mjög stíft á þau tímamörk. Þ.e. að við náum einhverju samkomulagi fyrir þann tíma,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM, í samtali við Viðskiptablaðið. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um viðræðurnar að svo stöddu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er rætt um skammtímasamninga sem munu gilda í 12-13 mánuði.

Friðrik sagði við Viðskiptablaðið í síðustu viku að kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum setji samningsaðilum ákveðin viðmið, líkt og að mögulega verði samið til skamms tíma.

„Þar var samið um ákveðna hluti og við horfum til þess hvernig það passar við hjá okkur. Svo erum við með önnur atriði undir eins og gamla lífeyrissamkomulagi frá 2016. Þetta er bara búið að vera verkefni."