*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 24. mars 2021 12:47

Stefna Alvotech í Bandaríkjunum

Bandaríska lyfjafyrirtækið AbbVie sakar Alvotech og fyrrverandi starfsmann um að hafa stolið trúnaðarupplýsingum.

Ritstjórn
Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og stofnandi Alvogen og Alvotech.
Aðsend mynd

Bandarískt lyfjafyrirtæki, AbbVie, hefur stefnt íslenska líftæknifyrirtækinu Alvotech. Vill bandaríska félagið meina að Alvotech hafi stolið trúnaðarupplýsingum úr sínum herbúðum. Statnews greinir frá þessu, en Fréttablaðið sagði fyrst íslenskra fjölmiðla frá þessu.

Baksaga málsins er sú að fyrir tveimur árum réði Alvotech til starfa fyrrverandi stjórnanda hjá AbbVie, vísindamanninn Rongzan Ho, sem vann að þróun á lyfinu Humira. Er Ho sakaður um að hafa sent trúnaðarskjöl sem tengdust þróun Humira á eigið persónulega netfang á síðasta degi sínum hjá AbbVie. Lyfjafyrirtækið bandaríska vill meina að Alvotech hafi skipað honum að gera svo.

Ho þessi hafi svo nýtt skjölin til þess að þróa eftirlíkingu af Humira innan veggja Alvotech og þannig stytt sér leið, í stað þess að fjárfesta nauðsynlegum tíma og auðlindum í þróun samheitaútgáfu af Humira upp á eigin spýtur. Ásakar AbbVie einnig Alvotech um að reyna að koma meintri eftirlíkingu af Humira inn á bandarískan markað.

Ho, sem lét af störfum hjá Alvotech á síðasta ári, neitar þessum ásökunum og kveðst hafa eytt öllum gögnum sem tengdust AbbVie er hann lét af störfum þar.

Stikkorð: dómsmál AbbVie Alvotech