Geim­ferða­fyrir­tæki breska auð­kýfingsins Richard Bran­son, Virgin Or­bit, hefur hætt allri starf­semi. Fyrir­tækið var stofnað árið 2017 en for­svars­menn þess óskuðu eftir greiðslu­stöðvun í síðasta mánuði og lauk gjald­þrota­með­ferð í dag.

Fyrir­tækið sem og eig­andinn voru með há­leit mark­mið en Virgin Or­bit stefndi að því að skjóta geim­flaugum úr far­þega­flug­vélum og koma þannig gervi­hnöttum á braut um jörðu með til­tölu­lega litlum kostnaði.

Hug­myndin var góð en fyrir­tækið komst aldrei á flug þar sem tæknin fékkst ekki til að virka eins og vonir stóðu til. Í maí árið 2020 mis­heppnaðist fyrsta til­rauna­skotið. Eftir nokkrar til­raunir til við­bótar tókst fyrir­tækinu að koma flaug á spor­braut jarðar um stund í janúar á þessu ári. Sá sigur var skamm­lífur þar sem eld­flaugin bilaði skömmu seinna.

Sjö hundruð starfs­menn störfuðu hjá fyrir­tækinu sem var með höfuð­stöðvar í Kali­forníu. Öllum starfs­mönnum var sagt upp í síðasta mánuði.

Í sam­tali við BBC, segir Richard Bran­son að hann hafi eytt um 260 milljörðum króna af eigin auð­æfi í geim­ferða drauminn sinn.