Í nýjustu könnunum í Noregi lítur út fyrir að hægristjórn muni taka við eftir kosningarnar í landinu. Hægriflokkur Ernu Solberg er nú með 31,1% fylgi og er það 1,4% aukning á milli kannanna. Flokkurinn fékk aðeins 17,2% í kosningunum árið 2009 og því stefnir allt í stórsigur.

Framfaraflokkurinn bætir einnig við sig fylgi og mælist hann nú með 14,2%. Talið er líklegast að Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn myndi næstu ríkisstjórn.

Miðað við þetta ætti stjórnarandstaðan í Noregi fái 111 sæti af 169 samkvæmt frétt á Reuters .

Áherslumál Solberg er að minnka umsvif ríkisins, einfalda regluverk, lækka skatta og að minnka hlut ríkisins í fyrirtækjum á borð við Statoil en ríkið á um 67% hlut í því sem er metinn á 270 milljarða norskra króna. Hugmyndir eru uppi um að minnka þann hlut í 51%. Hún hefur einnig sagt að það sé ekki eðlilegt að norska ríkið eigi um 35% af virði norska hlutabréfamarkaðarins.

Verkamannaflokkurinn, flokkur forsætisráðherrans Jens Stoltenbergs, er með 28,9%. Samstarfsflokkar hans virðast ekki ná mönnum á þing en þeir ná ekki yfir 4% þröskuldinn. Jens Stoltenberg hefur verið forsætisráðherra í tvö kjörtímabil eða frá árinu 2005.

Kosningar í Noregi verða mánudaginn 9. september