Stefnt er að því að skrá Advania í Kauphöll á Íslandi og í Svíþjóð árið 2016 eða 2017. Þetta er haft eftir Gesti G. Gestssyni í Morgunblaðinu í dag. Hann bætir þó við að á meðan gjaldeyrishöft séu við lýði þurfi undanþágu til að skrá félagið í Svíþjóð.

Eins og VB.is greindi frá var tilkynnt um nýja eigendur á hluthafafundi Advania í gær, en alþjóðlega fjárfestingafélagið AdvInvest eignaðist 57% hlut í fyrirtækinu. Forsvarsmenn AdvInvest hafa þegar upplýst hluthafa um að stefnt sé að skráningu félagsins í kauphallir.

Yfir 60% tekna Advania koma erlendis frá, en með breytingum á eignarhaldinu er stefnt að því að auka tekjur félagsins verulega á erlendri grundu. Norðurlöndin eru markaðssvæði fyrirtækisins.