Petrea I. Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Sýnar, hefur ákveðið að draga framboð sitt til stjórnar fyrir komandi hluthafafund á fimmtudaginn næsta til baka. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún sendi til fjölmiðla í kvöld.

Hún segir frá því að Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), hafi sett maka sínum, Benedikti K. Magnússyni, fjármálastjóra OR, afarkosti vegna stjórnarsetu hennar hjá Sýn. Orkuveita Reykjavíkur er móðurfélag Ljósleiðarans.

„Nú nokkrum dögum fyrir hluthafafund hjá Sýn hef ég ákveðið að draga framboð mitt til áframhaldandi stjórnarsetu til baka. Maki minn, Benedikt K. Magnússon, gegnir starfi framkvæmdastjóra fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Í lok liðinnar viku setti forstjóri OR honum afarkosti vegna starfs síns, haldi ég áfram í stjórn,“ segir í yfirlýsingu Petreu.

„Það er mat OR að seta mín í stjórn Sýnar hafi í för með sér að eiginmaður minn geti ekki sinnt starfi sínu sem skyldi, vegna mögulegrar ásýndar hagsmunaárekstra, sem myndi því leiða af sér brottvikningu hans úr starfi. Þess vegna hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka.“

Stjórnar- og varaformaður OR höfnuðu beiðni um fund

Petrea tekur þó fram að fyrir liggi lögfræðiálit þess efnis að ekki sé um hagsmunaárekstra að ræða.

„Bæði félög hafa fram að þessu beitt fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir slíka árekstra. Frá því Benedikt réð sig til starfa, fyrr á þessu ári, hef ég ekki haft neinn aðgang að þeim upplýsingum eða málum sem varða Ljósleiðarann og Sýn. Vandað hefur verið til verka hvað það varðar og þegar málefni Ljósleiðarans koma upp hef ég vikið af öllum stjórnarfundum.“

Petrea segist hafa óskað eftir fundi með formanni og varaformanni stjórnar OR „til að fara yfir þá þröngu stöðu sem ég var sett í aðeins nokkrum dögum fyrir hluthafafund“.

„Þau sáu sér ekki fært að verða við þeirri beiðni minni. Það eru mér mikil vonbrigði að OR hafi ekki séð aðra kosti í stöðunni og ekki gefið færi á samtali í þeirri von að leita lausna.“

Auk þess að gegna stjórnarstörfum hjá Sýn situr Petrea í stjórnum Terra, Daga, Allianz og Ósa og dótturfélögum Ósa: Icepharma, Parlogis og Lyfis ásamt því að sinna ráðgjafastörfum.

Annar hluthafafundurinn innan tveggja mánaða

Í lok ágúst fór fram hluthafafundur hjá Sýn þar sem kjörin var ný stjórn að beiðni fjárfestingarfélagsins Gavia Invest, sem varð stærsti hluthafi félagsins í júlí eftir að hafa keypt allan hlut Heiðars Guðjónssonar, fyrrum forstjóra Sýnar.

Jón Skaptason, forsvarsmaður Gavia, var kjörin í stjórnina og tók sæti Hjörleifs Pálssonar sem sóttist ekki eftir endurkjöri. Að öðru leyti var stjórnin óbreytt frá síðasta aðalfundi. Petrea tók þá við stjórnarformennsku af Hjörleifi.

Sjá einnig: Sýn boðar hluthafafund 20. október

Örfáum vikum síðar boðaði stjórn Sýn aftur hluthafafund að beiðni þriggja hluthafa, sem eiga samtals 10,2% hlut í félaginu. Á fundinum, sem fer fram á fimmutdaginn næsta, 20. október, verður borin fram tillaga um að bundinn verði endir á kjörtímabili sitjandi stjórnar.

Verði það samþykkt fer fram stjórnarkjör á ný, innan við tveimur mánuðum frá síðasta stjórnarkjöri.

Í stjórn Sýnar sitja:

  • Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, stjórnarformaður
  • Jóhann Hjartarson, varaformaður stjórnar
  • Páll Gíslason
  • Sesselía Birgisdóttir
  • Jón Skaftason

Yfirlýsing Petreu í heild sinni:

Nú nokkrum dögum fyrir hluthafafund hjá Sýn hef ég ákveðið að draga framboð mitt til áframhaldandi stjórnarsetu til baka. Maki minn, Benedikt K. Magnússon, gegnir starfi framkvæmdastjóra fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Í lok liðinnar viku setti forstjóri OR honum afarkosti vegna starfs síns, haldi ég áfram í stjórn.

Það er mat OR að seta mín í stjórn Sýnar hafi í för með sér að eiginmaður minn geti ekki sinnt starfi sínu sem skyldi, vegna mögulegrar ásýndar hagsmunaárekstra, sem myndi því leiða af sér brottvikningu hans úr starfi. Þess vegna hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka.

Þess ber þó að geta að fyrir liggur lögfræðiálit að ekki sé um hagsmunaárekstra að ræða. Bæði félög hafa fram að þessu beitt fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir slíka árekstra. Frá því Benedikt réð sig til starfa, fyrr á þessu ári, hef ég ekki haft neinn aðgang að þeim upplýsingum eða málum sem varða Ljósleiðarann og Sýn. Vandað hefur verið til verka hvað það varðar og þegar málefni Ljósleiðarans koma upp hef ég vikið af öllum stjórnarfundum.

Ég óskaði eftir fundi með formanni og varaformanni stjórnar OR, til að fara yfir þá þröngu stöðu sem ég var sett í, aðeins nokkrum dögum fyrir hluthafafund. Þau sáu sér ekki fært að verða við þeirri beiðni minni. Það eru mér mikil vonbrigði að OR hafi ekki séð aðra kosti í stöðunni og ekki gefið færi á samtali í þeirri von að leita lausna.