Þótt mikill meirihluti stjórnenda fyrirtækja telji aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar þá hefur þeim fækkað hlutfallslega síðustu mánuði. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent fyrir SA og Seðlabanka Íslands meðal stærstu fyrirtækja landsins.

Nú telja 67% stjórnenda aðstæður vera slæmar en hlutfallið var 72% í síðustu könnun sem gerð var fyrir tveimur mánuðum síðan. 29% telja að þær séu hvorki góðar né slæmar en 4% að þær séu góðar. Á landsbyggðinni er þungt yfir stjórnendum, þar sem fjórir af hverjum fimm telja aðstæður slæmar, og enginn stjórnandi í sjávarútvegi telur aðstæður góðar.

Á höfuðborgarsvæðinu telja þrír af hverjum fimm aðstæður vera slæmar en 5% að þær séu góðar. Jákvæðasta matið á núverandi aðstæðum er í ýmsum þjónustugreinum, að því er segir í frétt á vef SA.

Lesa má nánar um málið á vefsíðu SA .