Helmingur stjórnenda væntir þess að aðstæður í atvinnulífinu batni á næstu sex mánuðum. Þetta er niðurstaða könnunar Capacent á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins sem gerð var fyrir SA og Seðlabankann í síðasta mánuði. Í sambærilegri könnun í mars taldi aðeins fjórðungur stjórnenda að horfur væru á betri tíð eftir sex mánuði.

Samkvæmt könnuninni eru stjórnendur í byggingariðnaði og fjármálastarfsemi bjartsýnastir, þá í sjávarútvegi og verslun, síðan í ferða- og flutningaþjónustu og loks iðnaði. Athygli vekur þó að 43% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu nú vera slæmar en aðeins 7% telja þær vera góðar. Þetta er betri niðurstaða en í mars þegar 60% töldu aðstæður í atvinnulífinu slæmar.