Áform eru uppi um stækkun Hótels Vikings í Hafnarfirði um 14 herbergi. Ekki hefur verið ákveðið hvaða útfærslu verður beitt en annars vegar er rætt um að bæta einni hæð ofan á hótelið en hin er að byggja nýja byggingu bak við Fjörugarðinn við hlið íþróttahússins við Strandgötu. Það er Jóhannes Viðar Bjarnason sem á og rekur hótelið.

Greint er frá þessu í Víkurfréttum. Fyrir nokkrum árum voru uppi hugmyndir um að byggja víkingasafn og eru áform um að nota teikninguna sem þá var gerð fyrir nýbygginguna vegna stækkunar.