Guido Menzio, hagfræðingur frá Penn-háskóla í Bandaríkjunum, settist um borð í flugvél American Airlines í Philadelphia á leið til Syracuse í síðustu viku. Hann tók upp skrifblokk og hripaði niður diffurjöfnu, sem hann svo einbeitti sér að. Sætisnautur hans, kona á þrítugsaldri, spurði hann þá hvort hann kæmi frá Syracuse - sem hann og neitaði.

Hún tók að finna til óróleika og kom bréfmiða til áhafnarmeðlims. Á bréfmiðanum skrifaði hún að hana grunaði Menzio um að vera hryðjuverkamann. Flugvélinni var snúið við af flugbrautinni og henni lagt aftur upp við flugvöllinn þar sem Menzio var tekinn til yfirheyrnar af hálfu öryggisfulltrúa flugvallarins og honum sagt að ábending hefði borist um að hann kynni að vera hryðjuverkamaður.

Þar var hann spurður hvað það hefði verið, nákvæmlega, sem hann hefði hripað niður í skrifblokkina sína. Það eina sem hann sá sér fært um að svara var með hlátrasköllum - þar eð það eina sem hann hafði verið að skoða var hagfræðileg diffurjafna um verðlagningu. Sætisnautur Menzio hafði mistekið stærðfræðina fyrir útlensku , og hélt að um væri að ræða hryðjuverkaáætlun.

Atvikið hefur verið sagt hafa vakið upp stórar spurningar um heilbrigða skynsemi og traustið sem fólk ber til hvors annars. Menzio sagði að þrátt fyrir að komið hefði verið fram við hann eins kurteislega og hægt var undir þessum kringumstæðum, þá hafi stirðleiki öryggisferla hins óskilvirka kerfis farið þó nokkuð í taugarnar á honum.