Undirbúningsfélag Verðbréfamiðstöðvarinnar hf. hefur nú verið stofnað. Mun miðstöð þessi sjá um rafræna eignaskráningu verðbréfa.

Eigendur félagsins eru lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og fjárfestar. Einar Sigurjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar Íslands hf., hefur verið ráðinn til að leiða uppbyggingu félagsins.

Félagið mun þá starfa við útgáfu og vörslu rafrænna verðbréfa, sem og uppgjör verðbréfaviðskipta milli markaðsaðila. Einnig mun það annast skráningu eignarhalds og óbeinna eignaréttinda yfir rafrænt skráðum verðbréfum.

Félagið hefur ekki fengið tilskilið starfsleyfi enn sem komið er, segir í tilkynningu frá því.