Á morgun, föstudaginn 25. ágúst, fellur ríkisbréfaflokkurinn RIKB12 á gjalddaga. Stærð flokksins er um 42,1 milljarður króna en hann er að stærstum hluta í eigu erlendra aðila.

Greining Íslandsbanka bendir á í Morgunkorni að erlendir fjárfestar gætu fengið tæplega 39 milljarða króna í hendurnar að vaxtagreiðslum meðtöldum, sé miðað við stöðuna síðustu vikuna.

Í gær fór fram útboð óverðtryggðra ríkisbréfa í flokkum á gjalddaga 2014 og 2022. Í RIKB14 bárust 14 gild tilboð að fjárhæð um 4,5 milljarðar króna að nafnverði. Tilboðum var tekið fyrir rúmlega 3 milljarða og var ávöxtunarkrafan 4,06%.

Í hinum flokknum var tilboðum tekið fyrir um 3,1 milljarð að nafnverði og var krafan 6,85%.