Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, telur heilbrigðismerki að í íslensku viðskiptalífi sé öflugur markaður með hlutabréf. Sömuleiðis telur hann heilbrigt að almenningur taki beinan þátt í áhætturekstri í gegnum hlutabréfamarkað. Bjarni ræðir þessi mál í tímariti Frjálsrar verslunar.

„Sem betur fer hefur íslenskur hlutabréfamarkaður þróast mjög mikið á undanförnum árum og þar er mikið langtímafjármagn frá lífeyrissjóðunum," segir Bjarni. „Einnig eru á markaðnum öflug tryggingafélög og félög í fjármálageira sem ala af sér afurðir eins og verðbréfasjóði. Við þurfum fleiri einkafjárfesta, sem fjárfesta í gegnum hlutabréfamarkaðinn svo hann verði dýpri. Sömuleiðis þurfum við fleiri erlendra aðila að markaðnum.

Ég held að búið sé að stíga mörg nauðsynleg skref til að búa til góðan grunn og síðan þurfa fyrirtæki að standa sig. Við verðum líka að passa að fyrirtæki fari ekki héðan þegar þau eru búin að ná ákveðinni stærð því það hefur svo mikil áhrif á áframhaldandi verðmætasköpun í landinu. Velferð þeirra sem á Íslandi búa er ekki bara háð því að vel sé hlúð að litlum sprotum. Við þurfum líka að hafa gott rekstrarumhverfi fyrir stærri fyrirtæki. Þetta eru hlekkir í sömu keðjunni."

Frelsi til fjárfestinga

Í lok níunda áratugarins voru sett lög til að örva hlutabréfakaup almennings. Fólk fékk skattaafslátt ef það keypti bréf í skráðum félögum. Óhætt er segja að þátttaka almennings á hlutabréfamarkaðnum hafi horfið eins og dögg fyrir sólu í hruninu þó að vafalaust sé eitthvað að rofa til í dag. Flestir fjárfesta samt eflaust í hlutabréfum í gegnum sjóði. Íslendingar eru samt sem áður eftirbátar Norðurlandanna þegar kemur að kaupum á hlutabréfum en þar telja heimilin eðlilegt að setja hluta af sínu sparifé í hlutabréfakaup.

„Ég er á því að við þurfum að fá aukna þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði og fagna því til dæmis alltaf þegar hluthöfum Iceland Seafood fjölgar. Ég held að það séu þrjár ástæður fyrir því að þátttakan er ekki meiri en raun ber vitni. Í fyrsta lagi brenndu margir sig í fjármálahruninu og misstu þar með traust á markaðnum og bara tíminn getur læknað þau sár. Ég held að við séum smám saman að vinna okkur í gegnum þetta og í því tilliti hafa endurbætur á regluverkinu mikið að segja.

Í öðru lagi þá fer ofboðslega stór hluti sparnaðarins í lífeyriskerfið. Þegar á bilinu 15 til 20% af launum einstaklinga fara í lífeyrissjóð þá verður ekki mikið um frjálsan sparnað, sérstaklega ekki þegar þetta helst í hendur við að fólk vill eiga eigið húsnæði. Þegar búið er að greiða í lífeyrissjóð og af húsnæðisláninu og greiða reglulega reikninga þá er ekki mikið eftir til fjárfestinga.

Í þriðja lagi þá hefur, vegna krónunnar, verið hægt að fá þokkalega ávöxtun á bankareikningum og skuldabréfum. Því hafa ýmsir ekki þurft að fjárfesta í hlutabréfum til að fá ásættanlega ávöxtun. - En það er breytt í dag. Núna eru vextir á bankareikningum núll eða nálægt núlli og ekkert líklegt að það sé breytast á næstunni. Þannig að ef fólk vill fá arðsemi á sitt fé þá þarf það að teygja sig út áhættulínuna og ég held að það sé smám saman að gerast.

Einnig tel ég að skoða eigi vandlega hvort fólki eigi að hafa meira um það segja hvernig lífeyrissparnaðinum er ráðstafað þannig að það geti orðið beinni þátttakandi í atvinnulífinu. Í þessu sambandi mætti auka frelsi einstaklinga til að ráðstafa séreignarsparnaðinum í þær fjárfestingar sem þeir hafa áhuga á."

Nánar er rætt við Bjarna Ármannsson í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi hér .