Tap bifreiðaframleiðandans Ford Motors nam 5,8 milljörðum Bandaríkjadala (um 400 milljörðum króna) á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt bráðabirgðatölum sem fyrirtækið birti í dag, segir í frétt Dow Jones.

Á sama tímabili í fyrra nam tap fyrirtækisins 284 milljónum Bandaríkjadala (19,6 milljörðum króna.) Fyrirtækið hefur verið að glíma við aukinn kostnað og minnkandi sölu í Bandaríkjunum, en Ford er annar stærsti bifreiðaframleiðandi Bandaríkjanna.

Afkoma starfsemi Ford í Evrópu hefur batnað á ársgrundvelli og stefnir í að hagnaður náist á fjárhagsárinu 2006, segir í fréttinni.