*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Erlent 10. febrúar 2015 10:58

Strauss-Kahn segist enga glæpi hafa framið

Dominique Strauss-Kahn bar vitni fyrir dómi í morgun en hann er ákærður fyrir hórmang. Hann neitaði sök.

Ritstjórn

Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bar vitni í réttarhöldum gegn honum sem fram fóru í borginni Lille í Frakklandi í morgun. Er hann sakaður um hórmang með því að hafa skipað undirmönnum sínum að útvega vændiskonur fyrir kynsvall (e. sex parties), en þrettán aðrir eru ákærðir í málinu.

Þegar hann bar vitni í morgun neitaði hann sök og sagðist enga glæpi hafa framið. Hann játaði hins vegar að hafa í fáein skipti tekið þátt í kynsvalli, en þar hefði ekkert ósæmilegt komið við sögu sem varði við lög.

Strauss-Kahn er sakaður um að hafa útvegað stúlkur í vændishring sem viðhafði starfsemi á hóteli í Lille. Þótt kaup á vændi séu ekki ólögleg í Frakklandi er hins vegar ólöglegt að stunda hórmang.

Verði Strauss-Kahn fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér fangelsisvist í tíu ár og sektargreiðslu að fjárhæð 1,5 milljóna evra.