Strax Holdings hefur keypt allt hlutafé í more... Mobilfunkzubehor GmbH og dótturfélagi þess, more... International Ltd. Í tilkynningu félagsins segir að eftir kaupin starfi Strax í 10 löndum í þremur heimsálfum við ýmsa þjónustu sem tengist aukahlutum fyrir farsíma, svo sem dreifingu, pökkun, rekstur vefsíðna, vöruþróun, birgðastýringu og fleira fyrir farsímafélög jafnt sem smásala.

Með þessum kaupum eflir Strax þjónustu sína í Evrópu en more... er með höfuðstöðvar í Þýskalandi og starfsemi í 8 löndum í álfunni. Þá er gert ráð fyrir nokkrum samlegðaráhrifum í kjölfar kaupanna, auk þess sem aukin tækifæri til innri og ytri vaxtar munu skapast á helstu mörkuðum félagsins. ?Við erum mjög ánægðir með kaupin á more... Hjá félaginu starfar traust og öflugt starfsfólk og félagið er með skýra stefnu og stöðugan rekstur, sem fellur vel að markmiðum og framtíðarsýn Strax,? segir Ingvi Týr Tómasson, forstjóri Strax.

Strax tók við rekstri more... þann 1. janúar 2006 og kemur more... inn í rekstur Strax frá og með þeim degi. Samanlögð velta Strax og more... var um 200 milljónir dollara á árinu 2005 og hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta um 3,5% af veltu. Kaupin voru fjármögnuð með nýju hlutafé í Strax og lántöku og er kaupverðið trúnaðarmál. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans sá um ráðgjöf og fjármögnun vegna kaupanna.

Um Strax

Strax var stofnað árið 1995 og rekur nú söluskrifstofur og vöruhús í Miami, London og Hong Kong. Félagið sérhæfir sig í þjónustu við farsímafélög, dreifingaraðila, heildsala og smásala í farsímageiranum. Strax þróar og framleiðir aukahluti fyrir farsíma auk þess að eiga viðskipti með farsíma og aukahluti frá öllum helstu framleiðendum.

Um more...

more... var stofnað árið 1994 og er með höfuðstöðvar og dreifingarmiðstöð í Þýskalandi. Félagið er ennfremur með söluskrifstofur á Englandi, Spáni, Frakklandi, Svíþjóð, Hollandi, Póllandi, og Sviss. more... er leiðandi aðili í sölu og markaðssetningu aukahluta fyrir farsíma í Evrópu.