*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 3. febrúar 2021 08:33

Stýrivextir óbreyttir

Stýrivextir verða óbreyttir í 0,75% eins og Landsbankinn og Íslandsbanki höfðu spáð. Búist er við að verðbólga hjaðni hratt.

Ritstjórn
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Aðsend mynd

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Stýrivextir verða því áfram 0,75%. Hagfræðideild Landsbankans sem og greiningardeild Íslandsbanka höfðu spáð óbreyttum vöxtum.

Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að eftirspurn hafi verið þróttmeiri, og efnahagssamdráttur því minni, en gert var ráð fyrir í nóvember. Gert sé ráð fyrir að eftirspurn vaxi hraðar á þessu ári en á hafði horfst í nóvember, en á móti séu innflutningshorfur lakari.

Bent er á að gengislækkun krónunnar vegi þungt í þeirri 4,3% verðbólgu sem nú mælist, auk þess sem heimsmarkaðsverð olíu og hrávöru hafi hækkað. Verðhækkanir innlendrar vöru endurspegli þó einnig þrótt innlendrar eftirspurnar.

Bankinn spáir 3,9% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi, en að hún hjaðni hratt eftir það, enda slaki hagkerfisins enn töluverður og gengið verið að styrkjast.

Í spá sinni um óbreytta stýrivexti benti Hagfræðideild Landsbankans á að lítið svigrúm sé til að lækka vexti, enda þegar orðnir sögulega lágir. Aðgerðir bankans muni því í frekari mæli felast í kaupum á ríkisskuldabréfum, sem hafi verið lítil í fyrra, en tekið við sér undir lok ársins. Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri sagði á peningamálafundi Viðskiptaráðs í nóvember í fyrra að árið í ár yrði „ár preningaprentunar“.

Yfirlýsing nefndarinnar í heild sinni:

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 0,75%.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála virðist innlend eftirspurn hafa verið þróttmeiri í fyrra en áður var áætlað og efnahagssamdrátturinn því verið minni en bankinn spáði í nóvember. Á þessu ári eru einnig horfur á að innlend eftirspurn vaxi meira en áður var spáð en á móti vega lakari útflutningshorfur. Þróun efnahagsmála mun þó markast af framvindu farsóttarinnar.

Verðbólga jókst í janúar þegar hún mældist 4,3%. Hér vega enn þungt áhrif gengislækkunar krónunnar á verð innfluttrar vöru. Á sama tíma hefur verð innlendrar vöru einnig hækkað sem endurspeglar að einhverju leyti þrótt innlendrar eftirspurnar. Þá hefur alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hækkað og við bætast óhagstæð grunnáhrif frá janúar í fyrra. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði um 3,9% á fyrsta fjórðungi ársins en að hún hjaðni tiltölulega hratt er líður á árið enda töluverður slaki til staðar í þjóðarbúinu og gengi krónunnar hefur hækkað undanfarna mánuði.

Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.