Landsbankinn mun á næstu þremur árum veita alls 3,6 milljónum króna til tveggja fræðsluverkefna á vegum Útflutningsráðs og var samkomulag þess efnis undirritað í gær að því er kemur fram í frétt bankans.

Annars vegar veitir bankinn 1,8 milljónum króna á árunum 2007-9 til þróunarverkefnisins Hagvöxtur á heimaslóð en verkefnið snýst um að auka samstarf á milli ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni. Verkefnið hefur nú þegar gefið góða raun á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi og er ætlunin að færa það yfir á Suður- og Suðausturland.

Hins vegar styrkir bankinn verkefnið Útflutningsaukning og hagvöxtur um jafnháa upphæð á tímabilinu, en verkefnið hefur verði á dagskrá Útflutningsráðs í 17 ár og miðar að því að þróa viðskiptahugmyndir um útflutning á vöru og þjónustu. Fjölmörg fyrirtæki hafa orðið til í gegnum þetta gamalgróna verkefni, og má meðal annars nefna stórfyrirtækin Össur og Bakkavör.

Landsbankinn og Útflutningsráð telja mikilvægt að við fræðslu og ráðgjöf sé lögð áhersla á gott skipulag fjármála er varðar m.a. fjármögnun útflutnings, gjaldeyrisviðskipti og áhættustýringu. Með því að taka höndum saman um fræðsluverkefnin vilja þessir aðilar fylgja þessum áherslum eftir.

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að styðja við vöxt og útrás smárra og meðalstórra fyrirtækja. Bankinn hefur stærsta hlutdeild á íslenskum fyrirtækjamarkaði og hefur stutt við vöxt íslenskra fyrirtækja frá stofnun bankans árið 1886 segir í frétt bankans.