Tökur á kvikmyndinni Bjólfskviða eru að hefjast á Suðurlandi á næstu dögum. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands er þátttakandi í verkefninu, en stofnað var sérstakt einkahlutafélag, Gjöll ehf., í tengslum við hlutafárþátttöku sjóðsins í kvikmyndaverkefninu. Hlutafjárframlag sjóðsins nam 7,5 miljónum króna og kom að stórum hluta frá Átaki til atvinnusköpunar, átaksverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.

Undirbúningur hefur staðið yfir í allt sumar, reisa hefur þurft leikmynd og gera tökustaði klára fyrir kvikmyndun. Tökur á myndinni munu fara fram við Vík í Mýrdal og Höfn í Hornafirði. Kvikmyndaverkefnið er hið viðamesta sem ráðist hefur verið í hér á landi. Áætlaður kostnaður er um einn milljarður króna og munu um 150 manns koma að tökum myndarinnar.

Kvikmyndin Bjólfskviða byggir á samnefndu fornensku kvæði frá 8. öld, þar sem takast á hið góða og hið illa. Talið er að kvæðið hafi veitt J. R. R. Tolkien, höfundi Hringadróttinssögu, innblástur að sögu hans um sömu baráttu.