Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, lét af störfum í dag eftir 36 ára ritstjóratíð og 43 ára störf hjá blaðinu.

Í kveðjuræðu sinni sagði Styrmir m.a að með honum hyrfu sjónarmið þeirra sem mótuðust í hörðum átökum kalda stríðsins endanlega úr ritstjórn Morgunblaðsins og friðsamlegri tímar tækju við.

„Ný kynslóð tekur við, nýir tímar, ungt fólk sem ber með sér lítið af böggum fortíðar og flytur með sér í útgáfu Morgunblaðsins nýjan kraft og nýja þekkingu og það sem mest er um vert, sjónarmið samtímans og framtíðarinnar sem verður að vera til staðar hverju sinni í útgáfu dagblaðs,” sagði Styrmir meðal annars.

Flokkstengslin voru of sterk

Hann sagði að ásamt fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins og nánasta samstarfsmanni hans um áratugaskeið, Matthíasi Johannessen, hefðu þeir gjörbreytt blaðinu.

„Byltingin mikla sem hefur kannski farið fram hjá mörgum og aðrir hafa ekki viljað viðurkenna, hvorki í hjarta sínu né gagnvart öðrum, vegna þess að Morgunblaðsins nýtur yfirleitt ekki sannmælis vegna sögu sinnar og stöðu í samfélagi okkar, byltingin mikla er sú að við breyttum Morgunblaðinu úr málgagni hinna ráðandi afla á Íslandi í að vera málsvari almannahagsmuna,” sagði Styrmir.

Hann sagði að tengsl blaðsins við Sjálfstæðisflokksins hefðu verið of sterk í gegnum tíðina, og hefðu þeir Matthías fyrir margt löngu ákveðið að slíta þau, en þó hefði blaðið haldið áfram að styðja Sjálfstæðisflokkinn umfram aðra flokka. Fyrir tæpu ári hefði hann hins vegar hringt í Matthías og sagt: „Nú ætla ég að ljúka þessu áður en ég hætti.”

Fjallað um Sjálfstæðisflokkinn á sama hátt og um aðra flokka

Þeir hefðu séð Geir H. Haarde komast klakklaust í gegnum kosningar og mynda ríkisstjórn, sem þeim hafði báðum verið umhugað um, og fyrst það var frá gæti hann rofið tengslin. Styrmir kvaðst hafa sagt við sinn gamla samstarfsmann: „Héðan í frá verður fjallað um Sjálfstæðisflokkinn eins og aðra flokka. Matthías var mér hjartanlega sammála. Ef þið lesið vel Morgunblaðið frá seinasta hausti til dagsins í dag sjáið þið að við það hefur verið staðið.”