SVÞ - Samtök verslunar og  þjónustu skora á  stjórnvöld að samþykkja á yfirstandandi þingi trúverðuga umsókn um aðild að Evrópusambandinu – þar sem hugur fylgir máli.  Með þannig umsókn fæst stefna á stöðugleika til framtíðar og gjaldmiðil sem íslensk fyrirtæki geta notað í samskiptum sínum við alþjóða samfélagið.

Í ályktun þeirra kemur fram að átta mánuðum eftir kerfishrun hér á landi bíða fyrirtækin enn eftir starfhæfu rekstrarumhverfi til að þau geti sinnt hlutverki sínu: að byggja upp íslenskt atvinnulíf til framtíðar og skapa fólki atvinnu.  Ljóst er að þau 20.000 störf sem er nauðsynlegt að skapa á næstu misserum munu einkum verða til í verslun, þjónustu og ýmsum iðnaði. Til þess að skapa þessi störf þarf atvinnulífið númer eitt, tvö og þrjú: lægri vexti og nothæfan gjaldmiðil.

Leggist á eitt við að finna lausnir

,,Atvinnulífið hefur á undanförnum mánuðum fylgst af athygli með störfum Alþingis þar sem hver höndin hefur verið upp á móti annarri.  Ef stjórnendur fyrirtækja hefðu fylgt fordæmi alþingismanna á undanförnum mánuðum væru fyrirtæki landsins enn verr stödd en þau eru í dag.  Á erfiðum tímum vita stjórnendur að nauðsynlegt er að þeir og starfsmenn fyrirtækja standi saman og leggist á eitt við að finna lausnir.  Stjórnendur og starfsmenn íslenskra fyrirtækja gera því þá kröfu að alþingismenn snúi bökum saman og vísi veginn út úr núverandi aðstæðum.  Þjóðin hefur hvorki tíma né efni á öðru  - nú þarf að setja þjóðarhag í forgang," segir í ályktunni.

SVÞ bendir á að fyrir Alþingi liggja tvær þingsályktunartillögur um aðildarviðræður við Evrópusambandið – önnur frá stjórn og hin frá stjórnarandstöðu – slíkt er ávísun á deilur um smáatriði og útfærsluleiðir.  ,,Samtök Verslunar og Þjónustu gera þá kröfu að stjórnvöld komi sér saman um trúverðuga umsókn, annað er ekki boðlegt þegar horft er til þess alvarlega ástands sem nú ríkir í þjóðfélaginu," segir í ályktun þeirra.