Karl Gústaf Svíakonungur og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, verða viðstaddir viðskiptaþing, sem haldið er á vegum sænska sendiráðsins á Hótel Nordica á morgun, miðvikudaginn 8. september. Á þinginu mun ISA, sænsk fjárfestingamiðlun sem annast erlenda fjárfesta þar í landi, gera samning við KB banka þess efnis að bankinn verði umboðsaðili skrifstofunnar á Íslandi. KB banki er stærsti íslenski fjárfestirinn í Svíþjóð og hefur því mikla reynslu og víðtæka þekkingu á sænska fjármálamarkaðinum. ISA, er sjálfstæð stofnun á vegum sænska ríkisins og veitir fjárfestum sem hafa áhuga á að fjárfesta í Svíþjóð ókeypis ráðgjöf. Umboðsskrifstofur stofnunarinnar eru Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, ítalíu, Hollandi, Suður-Kóreu, Taiwan, Los Angeles og nú á Íslandi.

Meðal þeirra sem taka til máls á viðskiptaþinginu eru Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, Micheal Treschow, stjórnarformaður símafyrirtækisins Ericsson, Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB banka og Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar

Viðskiptaþingið stendur frá 8.00-12.00, 8. september á Hótel Nordica.