*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 18. október 2020 15:04

Tækninni fylgja auknar kröfur

Forstjóri RB segir að eftir því sem tækninni fleyti fram aukist kröfur viðskiptavina og það sé áskorun sem fyrirtækið fagni.

Ritstjórn
Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna.
Gígja Einarsdóttir

Grunnrekstur okkar hefur gengið vel, bæði í fyrra sem og á þessu ári, segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna (RB), en RB hagnaðist um 203 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn lítillega frá árinu 2018 er hann nam 200 milljónum króna. Reiknistofan velti ríflega 6 milljörðum króna árið 2019 en árið áður nam veltan 5,5 milljörðum króna. RB er að stærstum hluta í eigu stóru viðskiptabankanna þriggja; Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka.

Ragnhildur segir helsta hlutverk RB vera að halda uppi grunngreiðslukerfum íslensks fjármálakerfis og þ.a.l. að tryggja framþróun og áreiðanleika kerfisins. „Við höfum verið að vinna í mjög stórum innleiðingarverkefnum síðustu árin sem snýst um að endurnýja þessi grunnkerfi fyrir fjármálafyrirtæki á Íslandi. Þessi verkefni hafa gengið vel og við sjáum nú fyrir endann á þeim á næsta ári. Næsta skref í þessu viðamikla verkefni er að skipta út kerfi Seðlabanka Íslands sem heldur utan um allar millibankagreiðslur og mun sú innleiðing klárast  á næstu vikum."

Líkt og fyrr segir hefur helsta verkefni undanfarinna ára hjá RB snúist um að setja upp ný grunngreiðslukerfi hjá fjármálafyrirtækjum. Ragnhildur segir að kominn hafi verið tími á að uppfæra kerfin, enda gamla kerfið, sem þó hafi staðið fyrir sínu og rúmlega það í gegnum tíðina, orðið barn síns tíma.

„Allt bankakerfið var í rauninni inni í einu kerfi á svokallaðri stórtölvu. Stórtölvan er gömul tækni en þykir ekkert sérstaklega þægileg nú til dags og ný tækni tekin við. Því var ákveðið að skipta því út  fyrir nýrri og tæknilegri högun. Íslendingar hafa lengi verið í fararbroddi hvað varðar rauntímagreiðslumiðlun og það er mjög mikilvægt að halda í það forskot. Íslandsbanki og Landsbankinn hafa þegar skipt út sínum grunnkerfum og við erum að vinna í að gera slíkt hið sama fyrir Arion banka, sparisjóðina og Kviku banka," segir Ragnhildur og bætir við að um sé að ræða gífurlega stórt og tímafrekt verkefni.

Þurfa að fylgjast vel með tækniframþróun

Að sögn Ragnhildar mun RB halda áfram að endurnýja grunninnviði fjármálakerfisins á næstu árum. „Við þurfum stöðugt að vera að fylgjast með þróun í tækni og lausnum fyrir fjármálakerfið, til að geta haldið áfram að bjóða upp á góðar og öruggar lausnir á hagkvæman hátt. Við munum halda áfram að vinna mjög náið með okkar helstu viðskiptavinum til að ná því markmiði. Eftir því sem tækninni fleytir fram verða kröfurnar alltaf meiri og meiri. Viðskiptavinirnir okkar vilja sjá aukna skilvirkni og kalla eftir auknu öryggi en gera jafnframt kröfu um lægri kostnað. Þetta er mikil áskorun sem við erum spennt fyrir að takast á við."

Hún segir RB búa svo vel að hafa á að skipa öflugu og reynslumiklu starfsfólki sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á þessum grunninnviðum fjármálakerfisins. „Vinnustaðamenningin er mjög öflug og við höfum komið vel út úr starfsánægjukönnunum. Fjarvinna að heiman vegna COVID-19 faraldursins hefur gengið mjög vel og höfum við á köflum verið með alla í fjarvinnu. Eftir sumarfrí þegar allir máttu mæta til vinnu var að jafnaði um 20-30% starfsmanna okkar í fjarvinnu," segir Ragnhildur en að sögn hennar höfðu margir starfsmenn RB þegar kynnst fjarvinnu áður en faraldurinn skall á og því hafi fólk verið fljótt að laga sig að slíku fyrirkomulagi.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.