Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu óbreyttir í 3%. Óhætt er að segja að skuldabréfamarkaðurinn hafi ekki tekið ýkja vel í ákvörðunina og mat nefndarinnar um að vaxtastigið sé hæfilegt miðað við stöðu þjóðarbúsins.

Ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréfum hefur hækkað töluvert það sem af er degi hvort sem litið er til verðtryggðra eða óverðtryggðra bréfa. Ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum bréfum á gjalddaga 2021 hafa hækkað um 16 punkta (0,16 prósentustig) það sem af er degi,  bréf á gjalddaga 2022 um 9 punkta og þá hafa bréf á gjalddaga 2025, 2028 og 2031 öll hækkað um 12 punkta. Töluverð viðskipti hafa verið með bréfin en hún nemur ríflega 7 milljörðum það sem af er degi.

Þá hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa á gjalddaga 2026 hækkað um 15 punkta og bréf á gjalddaga 2030 um 13 punkta. Viðskipti með bréfin tvö nemur samtals rúmlega 2,4 milljörðum það sem af er degi.

Raunvextir hækkað

Peningastefnunefnd hefur frá því í maí lækkað stýrivexti um 1,5 prósentustig úr 4,5% niður í 3%. Á sama tíma hafa vextir á ríkisbréfum ekki fylgt lækkunum og hafa auk þess hækkað töluvert á síðustu misserum en tíu ára verðtryggðir vextir hafa hækkað um 26 punkta frá síðustu ákvörðun og 10 ára óverðtryggðir vextir um 36 punkta og er þar ekki meðtalin hækkun dagsins.

Sé hækkun dagsins tekin með má sjá að vextir verðtryggðra ríkisbréfa á gjalddaga 2026 og 2030 hafa hækkað um 8 og 9 punkta frá því daginn áður en nefndin hóf vaxtalækkunarferli í maí. Þá hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa á gjalddaga 2025 lækkað um 32 punkta frá því í maí og bréfa á gjalddaga 2028 og 2031 um 26 punkta.

Gagnrýni úr Borgartúni

Stýrivaxtaákvörðun dagsins hefur fengið töluverða gagnrýni úr Húsi atvinnulífsins en bæði Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa lýst vonbrigðum með ákvörðunina. Samtök atvinnulífsins telja ákvörðunina misráðna í ljósi hagtalna sem sýni dýpkandi lægð í efnahagslífinu, fækkun starfa og vaxandi atvinnuleysi. Þar að auki hafi verðbólga hjaðnað og verðbólguvæntingar séu við 2,5% markmið Seðlabankans. Þá er jafnframt bent á að peningalegt aðhald hafi aukist frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi.

Í tilkynningu frá SA er einnig nefnt að í yfirlýsingu peningastefnunefndar sé ekki minnst á önnur stjórntæki sem hafi áhrif á aðhald peningastefnunnar. Eru körfur um eiginfjárauka bankanna sérstaklega nefndir í því samhengi þar sem þær leiði til minni útlánagetu og hærri útlánavaxta. Eiginfjárauki bankanna var hækkaður í maí síðastliðnum og er áformað að hækka hann enn frekar í janúar næstkomandi.  Að mati SA skýtur það skökku við í í miðri efnahagslægð á sama tíma og bankarnir berjast í bökkum við að skila ásættanlegri arðsemi.

Samtök iðnaðarin s taka í sama streng en í tilkynningu frá samtökunum er lýst miklum vonbrigðum með ákvörðun nefndarinnar. Telur SI að verðbólga og verðbólguvæntingar gefi nefndinni svigrúm til þess að lækka stýrivexti frekar og milda þannig efnahagssamdráttinn. Kallar SI eftir því að brugðist sé við þeirri þróun sem sé að eiga sér stað í efnahagslífinu með framsýnum hætti í peningastjórnun. Þá telja samtökin að hik í vaxtalækkunarferli sé ekki rétta meðalið við þessar aðstæður. Fumlaus vinnubrögð og áræðni í hagstjórn þurfi til eigi að nást það markmið að milda yfirstandandi efnahagsniðursveiflu og neikvæð áhrif hennar á íslensk fyrirtæki og heimili.

Komi úr fleiri áttum

Að mati greiningar Íslandsbanka er greinilegt að nefndarmönnum peningastefnunefndar hafi ekki þótt nýlegar hagtölur breyta mikið þeirri sýn sem þeir höfðu á efnahags- og verðbólguhorfur við síðustu vaxtaákvörðun í nóvember þegar það var mat nefndarinnar að núverandi vaxtastig væri hæfilegt miðað við efnahags- og verðbólguhorfur. Í viðbrögðum Íslandsbanka við ákvörðuninni kemur fram að aðspurð hafi Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri sagt á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar að sú vaxtalækkun sem orðin væri á árinu ætti enn eftir að koma fram að fullu í örvun hagkerfisins. Núverandi raunvextir væru talsvert undir metnum jafnvægisraunvöxtum Seðlabankans, sem um þessar mundir eru í kring um 2% og taldi því ekki rétt að lækka vexti bankans meira að þessu sinni. Þá kemur einnig fram að seðlabankastjóri hafi bent á að ð við núverandi vaxtastig væri hætta á að frekari vaxtalækkun hefði minni áhrif en ella á vaxtakjör í fjármálakerfinu þar sem innlánvextir væru þegar nærri núlli.

Að mati Íslandsbanka þarf slökun á fjármálalegu aðhaldi á komandi misserum að koma víðar frá en lækkun stýrivaxta. Telur greining bankans að eðlilegt fyrsta skref væri að taka til baka áætlaða 0,25 prósentu hækkun á sveiflujöfnunarauka á eigið fé viðskiptabanka sem koma á til framkvæmda þann 1. febrúar næstkomandi þar sem vísbendingar séu um að sú hækkun sé nú þegar farin að hafa áhrif á útlánavilja þeirra.