Grundvallarboðskap kanadíska sálfræðiprófessorsins Jordan Peterson, sem hélt tvo fyrirlestra fyrir fullu húsi í byrjun vikunnar í Silfurbergi í Hörpu, til einstaklinga má að mörgu leyti heimfæra upp á fyrirtæki.

Meginþráðurinn í fyrirlestrunum, sem hann hefur haldið víða um heim, er að horfa verði fyrst og fremst á einstaklinginn og að hann verði að taka fyrst ábyrgð á sjálfum sér, síðan fjölskyldu og nánasta umhverfi áður en lengra er haldið í að takast á við vandamál heimsins.

Jafnframt sé nauðsynlegt að forðast fórnarlambshugsunina sem víða er haldið að fólki í háskólum og menningunni. Það er algengt þemaefni á netmiðlum að draga boðskapinn saman í grundvallarsetninguna: Taktu til í herberginu þínu!

Fólk dregið í dilka

Peterson segir að fyrirtæki sem vilji ná árangri verði að sama skapi að hafna öfgafullum kröfum um að haga ráðningum þannig að útkoman verði sem jöfnust, ef horft er á starfsmenn eftir flokkunum byggðum á geðþóttamælikvörðum eins og hann kallar það.

Vísar hann þar í síauknar kröfur ákveðinna hagsmunahópa, fyrst í háskólum en nú einnig hjá fyrirtækjum og stofnunum, um að við ráðningar sé fólk dregið í dilka eftir til að mynda kyni, ætt eða uppruna.

„Ef þú ert að reyna að byggja upp gott fyrirtæki er rétt að ráða hæfasta fólkið óháð eiginleikum sem ekkert hafa með getu fólks að gera, líkt og loks var farið að gera á 7. áratugnum,“ segir Peterson og vísar í það þegar konur fóru að fá sömu tækifæri og karlar á vinnumarkaði víðast hvar í hinum vestræna heimi.

„Stjórnmálaþenkjandi fólk vill alltaf meina að það drífi áfram breytingarnar, en það sem hleypti konum loks út á vinnumarkaðinn voru fyrst og fremst framfarir í pípulögnum, túrtappinn og getnaðarvarnarpillan. Grundvallarhugmyndin á bak við það að losna við fordómana sem þó voru víða til staðar þá, var að útrýma því að horft væri á þætti sem hafa ekkert með hæfileika að gera við ráðningar og stöðuhækkanir. Það eina sem á að skipta þig máli þegar þú ert að ráða er hver sé geta einstaklingsins til að sinna því starfi sem það er ráðið í.“

Frá Harry Potter til Biblíunnar

Í fyrirlestrum sínum notar hann mikið erkitýpusögur um hetjudáðir og mannlegan breyskleika úr dægurmenningunni, allt frá
ofurhetjusögum og Harry Potter yfir í goðafræði, austræna heimspeki og Biblíuna. Notar hann boðskap sagnanna til að hamra á því hvernig hægt er að standast mótlæti heimsins, út frá vísindaniðurstöðum sálfræðinnar.

Í gegn skín áhersla á að fólk tengi sig vel í menningarlegar rætur sínar á sama tíma og boðskapur hans er að horft er fyrst og fremst á sjálfstæði einstaklingsins frekar en mögulegar hópsjálfsmyndir. Annars kalli það á sífelld átök og eilífan samanburð eftir hópum.

„Fyrirtæki þurfa fyrst og fremst að nota hlutlausa mælikvarða og þannig ráða hæfasta fólkið út frá þeim eiginleikum sem fyrirtækið stefnir á að ná fram. Það er engin betri leið til að gera þetta öðruvísi svo vel sé. En það sem mun alltaf gerast er að niðurstaðan verður ójöfn eftir hópum,“ bendir Peterson á en hann hefur verið gagnrýninn á aukin völd mannauðsdeilda fyrirtækja sem stefna að jafnstöðu.

„Þær hafa fengið þessi völd vegna sektarkenndar þeirra sem ráða hjá fyrirtækjum, en einnig vegna aukinnar lagalegrar skyldu um að ná fram jafnari niðurstöðu. Vandamálið er að með því ertu að kaupa alls kyns fyrirframgefnar hugmyndir. Í fyrsta lagi að þú ættir að vera að flokka fólk eftir hópum, sem er slæm hugmynd til að byrja með, en í öðru lagi er spurningin, hvernig á að skipta eftir hópum. Það virðist vera gert eftir geðþótta hverju sinni, sem passar inn í staðháttarlega ramma þeirra sem hafa þessa hugmyndafræði.“

Mótsagnakennd hugmyndafræði og samtvinnunar femínismi

Peterson kallar þessa hugmyndafræði mótsagnakennda blöndu póstmódernískra hugmynda um afstæði allra hluta, við einhvers konar nýmarxísk gildi um baráttu hins undirrokaða. „Ættu hóparnir, sem skipt er eftir og bornir saman, að byggja á kynþætti og kyni eins og fyrstu nýmarxistarnir gerðu, eða eins og síðan bættist við þjóðernisuppruna, kynþætti og kyni?“ spyr Peterson.

„Síðan reis upp hreyfing þeirra sem vilja líta til þess hvernig samtvinnun þessara þátta hefur áhrif, því það er hægt að skipta fólki upp eftir hópum á svo ofboðslega margan hátt. Til dæmis eftir hæð, sem vissulega hefur áhrif á hversu vel fólki gengur, fegurð, aldri, gáfum og svo framvegis.

Sem dæmi þá er byrjað að horfa eftir kynþætti í aðgengi í bandaríska háskóla, en nú gengur svörtum innflytjendum í Bandaríkjunum alla jafna betur en innfæddum blökkumönnum, á þá að flokka á milli þeirra? Svo gengur þeim sem eru af millistétt betur en þeim sem eru af lágstétt, á að bera þá saman?“

Peterson kallar þetta leik sem ekki sé hægt að vinna og varar fyrirtæki við því að fylgja í fótspor háskólanna hvort sem það er í skiptingu umsækjenda eða starfsmanna sem fái forgang, eftir kynþáttum, kynjum eða hvaða öðrum forsendum.

„Mér er sama hver breytan er sem horft er eftir, það er yfirborðskennd og röng krafa að hægt sé að jafna stöðu fólks eftir öllum flokkaskiptingum. Fyrirtæki mega ekki viðurkenna að það sé sönnun fyrir mismunun innan þeirra raða að þau hafi ekki algera jafnstöðu eftir öllum mögulegum skiptingum fólks eftir hópum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . A ðrir geta skráð sig í áskrift hér .