Meðalleiguverð fyrir tveggja herbergja íbúð á mánuði hefur hækkað umtalsvert í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Álftanesi, Mosfellsbæ og á Kjalarnesi, ef miða má við tölur frá Þjóðskrá. Sama þróun er á leiguverði í Reykjavík eins og komið hefur fram í úttekt Viðskiptablaðsins.

Á grafi Viðskiptablaðsins er hægt að sjá greinilega þróunina yfir síðustu fimm ár eða svo. Miðast er við gögn frá Þjóðskrá Íslands þar sem að meðalleiguverð á fermetra er borið saman milli árshelminga allt frá árinu 2011 til júlí 2016.

Meðalleiguverð fyrir tveggja herbergja íbúð
Meðalleiguverð fyrir tveggja herbergja íbúð

Í janúar 2011 nam meðalleiguverð á fermetra í Kópavogi til að mynda 1.476 krónur, en í júlí 2016 nam verðið 2.242 kr. Meðalverð á 50 fm íbúð í janúar árið 2011 hefði því verið um 73.800 krónur, en í júlí 2016 væri meðalverðið  verið um 112.100 krónur fyrir 50 fermetra íbúð. Því varð 52% hækkun á meðalleiguverði á fermetra í Kópavogi.

Sama saga í Hafnafirði, Garðabæ og á Kjalarnesi

Svipað er uppi á teningnum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi. Þá var meðalleiguverð á fermetra 1.414 krónur í janúar 2011, en í júlí 2016 nam það 2.368. Því hefði það að meðaltali kostað rúmlega 70 þúsund krónur að leigja íbúð á því svæði í byrjun árs 2011, en meðalverðið á 50 fm. íbúð hefur hækkað upp í tæplega 120 þúsund krónur í júlí 2016.

Einnig ber að taka fram að þarna er miðað við nafnvirðishækkun — en ekki raunvirðishækkun — fyrir tímabilið janúar 2011 til júlí 2016.