Á sama tíma og embættismenn í Brussel og grísk stjórnvöld reyna að ná saman um nýjan lánapakka til Grikklands hafa augu sérfræðinga beinst að því hversu mikið tap Evrópska seðlabankans (ECB) gæti orðið ef ekki tekst að forðast greiðsluþrot Grikklands.

Financial Times segir að þanka tankurinn (e. think tank) Open Europe í Lundúnum áætli að ECB eigi 444 milljarða evra í formi skuldabréfa á Grikkland, Írland, Portúgal, Spán og Ítalíu.

Sú eign tengist ekki neyðarlánum úr neyðarsjóði ESB en stærð hans er 750 milljarðar evra. Að mati Open Europe er þarna um hulið tap að ræða, mögulega gríðarlegt, í bókum ECB en skuldabréf ríkissjóða landanna hafa fallið mismunandi mikið í verði á síðustu mánuðum.

Evrópski seðlabankinn hefur ekki gefið upp hversu hárri fjárhæð hann hefur varið í kaup á skuldabréfum útgefnum af aðildarríkjum evrópska myntsamstarfsins.