Heimsmarkaðsverð á áli hefur verið á hraðri niðurleið síðan í júlí á síðasta ári en það fór hæst í 3.291 dollara á tonnið. Aðeins einu sinni áður hefur ál náð viðlíka hæðum og í sumar, en það var í mjög skamman tíma á fyrri helmingi árs 2006. Á gamlársdag var álverð skráð 1.446 dollara á hrávörumarkaði í London.    Þróun álverðs hefur síðan haldist í takt við hægari gang á efnahagsvél heimsins og fátt bendir til mikilla breytinga þar á í bráð. Álverð í árslok 2008 var komið langt niður fyrir rekstrarleg þolmörk flestra ef ekki allra álvera í heiminum.   Í uppgjöri Century Aluminum (sem á og rekur álver Norðuráls í Hvalfirði) vegna þriðja ársfjórðungs 2008 var bent á að við 2.200 dollara álverð á hvert tonn væri talið að 55% álvera í Kína væru komin í taprekstur. Síðan hélt álverð áfram að lækka og sérfræðingar töldu að við 2.000 dollara mörkin hafi öll kínversk álver verið komin í taprekstur. Samt er ýmis rekstarkostnaður þar í landi mjög lágur, eins og laun og annað. Má því ætla að í dag séu flest álver heimsins rekin með tapi.   Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í gær.