Tekjur bandaríska fjármálafyrirtækisins JP Morgan Chase jukust um 55% á fyrsta ársfjórðungi, en fjárfestingarstarfsemi bankans skilaði metafkomu. JP Morgan, sem er þriðja stærsta fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna á eftir Bank of America og Citigroup, tilkynnti einnig að arðgreiðslur yrðu auknar um 12% og stjórnin hafi heimilað viðbótarupphæð til endurkaupa hlutabréfa í fyrirtækinu að andvirði 650 milljarða króna.

Hagnaður fyrirtækisins nam 311 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, en hagnaður af fjárfestingastarfsemi jókst um 81% og nam rúmlega hundrað milljörðum króna.