„Þetta hefur haft gríðarlega slæm áhrif á svínabændur og hefur þegar valdið okkur stórtjóni. Það er ekki séð fyrir endann á því. Það mun taka marga mánuði að vinna þetta upp,“ segir Geir Gunnar Geirsson, framkvæmdastjóri Stjörnugríss, í samtali við Morgunblaðið en verkfalli dýralækna lauk með lagasetningu á laugardag.

Geir áætlar að um 500 tonn af frosnum og lifandi birgðum af svínakjöti hafi safnast upp vegna verkfallsins. Það sé sala sem sé alveg töpuð, enda sé ekki hægt að selja sama matinn tvisvar. Fólk hafi borðað eitthvað annað á tímabili verkfallsins.

Hann segist geta ímyndað sér að staðan sé erfið hjá svínabændum sem ekki hafi getað slátrað í heilan mánuð. „Þeir höfðu engar tekjur en þurftu að greiða reikninga fyrir fóður, rafmagn, laun og annað og af lánum. Ég get ímyndað mér að staða margra bænda sé mjög slæm. Svínabændur eiga eftir að sjá hvernig kjötverð þróast á næstunni,“ segir hann.