Það tekur að minnsta kosti tíu ár að koma skikki á ríkisfjármál Grikklands en ekki örfá ár eins og hinir bjartsýnustu telja. Þetta hefur sænski viðskiptavefurinn di.se eftir Jens Söndergaard, greinanda hjá fjárfestingarbankanum Nomura í London. Hann segir áhættuna á því að evran falli saman áþreifanlega.

Þó segir Söndergaard það alls ekki útilokað að leysa takist þann vanda sem nú steðjar að en það feli í sér að stjórnmálamönnum takist að leysa hnúta og að efnahagsbati í hagkerfunum haldi áfram. Þá sé nauðsynlegt að allir taki höndum saman og vinni sem einn að því að leysa vandann. Verði Grikkland hins vegar gjaldþrota muni það steypa Evrópu í langvinna niðursveiflu.