Erfiðleikar Baugs UK, dótturfyrirtækis Baugs Group í Bretlandi, ná aftur til ársins 2007 þó að Baugur UK hafi fyrst í þessum mánuði verið settur í greiðslustöðvun eftir að samnningaviðræður við lánardrottna skiluðu ekki árangri. Þetta kemur fram í frétt Telegraph.

Í fréttinni segir að nú sé komið í ljós að endurskoðendur KPMG hafi vakið athygli á þeirri staðreynd, að það hafi verið „veruleg óvissa sem kunni að valda verulegum efasemdum um getu Baugs UK til áframhaldandi rekstrar“. Þetta hafi komið fram hjá endurskoðendunum þegar þeir fóru yfir reikninga rekstrarársins sem lauk í desember 2007.

Reikningum skilað of seint

Þá segir að yfirlýsing endurskoðendanna hefði átt að verða opinber í október í fyrra, en Baugur UK hafi ekki sinnt tímafresti til að skila reikningi fyrir árið 2007.

KPMG mun hafa bent á að Baugur UK hafi verið háð móðurfélaginu á Íslandi og endurskoðendurnir hafi lítið vitað um fjármögnun félagsins. Efasemdirnar komu fram í athugasemdum sem endurskoðendur færi í reikninga til að lýsa áhyggjum sínum um reikningana, að því er segir í Telegraph.

Blaðið segir ennfremur að reikningunum hafi ekki verið skilað fyrr en 3. febrúar í ár, skömmu áður en félagið fór í greiðslustöðvun. Telegraph segir að KPMG hafi neitað að tjá sig um málið.